Gert er ráð fyrir 535 milljóna króna afgangi af rekstri Akureyrarbæjar á næsta ári. Fyrri umræður um fjárhagsáætlun bæjarins fyrir næsta ár fóru fram í bæjarstjórn Akureyrar í gær.

Í rekstrarreikningi er gert ráð fyrir því að tekjur verði rúmlega 18,1 milljarður króna en að rekstrargjöld fyrir utan fjármagnsgjöld verði rúmlega 16 milljarðar. Rekstrarniðurstaðan er því jákvæð um 535 milljónir króna að teknu tilliti til fjármagnsgjalda. Þegar eingöngu er horft til reksturs sjálfs bæjarsjóðs er niðurstaðan jákvæð um 22,4 milljónir króna.

Fram kemur í umfjöllun Vikudags um afkomu Akureyrar, að gert sé ráð fyrir að útsvar og fasteignagjöldi verði óbreytt en að sorphirðugjaldið hækki um 10%. Hækkunin á að standa undir 87% af áætluðum kostnaði við sorphirðu, endurvinnslu og eyðingu.