Verðmæti Jarðbaðanna við Mývatn hefur haukist um 2,3 milljarða á tveimur árum. Miðað við að félagið var um síðustu áramót metið á 3,2 milljarða króna hefði óbeinn eignarhlutur Akureyrarbæjar í félaginu að verðmæti 195 milljarða. Sveitarfélagið seldi þó bréfin, sem það átti í fjárfestingarfélaginu Tækifæri sem á 40,6% hlut í baðstaðnum, á 116 milljónir fyrir tæpu einu og hálfu ári síðan, eða í janúar 2016 að því er Vísir greinir frá.

Verðmæti Jarðbaðanna nemur um 94,5% af bókfærðu virði eigna fjárfestingarfélagsins, en hún var metin á 348 milljóinir árið 2014, 734 milljónir í ársbyrjun 2016, rétt áður en Akureyrarbær seldi sinn hlut, og svo rétt tæða 1,3 milljarða um síðustu áramót. Jarðböðin, sem opnuð voru í júní árið 2004, fengu rúmlega 200 þúsund gesti á síðasta ári, sem var metár að sögn Steingríms Birgissonar, stjórnarformanns fyrirtækisins.

Árið 2015 greiddu 149 þúsund manns aðgangseyri að baðstaðnum og var félagið þá rekið með 238 milljón króna hagnaði en 161 milljón króna hagnaði árið áður. Í árslok 2015 voru eignir félagsins metnar á 384 milljónir en skuldirnar námu 15 milljónum.

„Útlitið fyrir sumarið er ágætt og árið byrjar vel. Menn hafa örlitlar áhyggjur af styrkingu krónunnar og að það geti farið að draga saman í þessum ferðamannageira,“ segir Steingrímur. „Það eru fram undan heilmiklar breytingar hjá okkur. Við erum að ráðast í miklar fjárfestingar en höfum síðustu ár haldið þeim og útgjöldum í lágmarki og fyrir vikið hefur reksturinn gengið mjög vel.

Það á að reisa nýja og stærri aðstöðu enda húsnæðið löngu sprungið og annar ekki eftirspurn. Við gerum ráð fyrir að það verði tilbúið vonandi árið 2019 en þetta er heilmikil fjárfesting sem verður í kringum tvo milljarða.“