Í dag var haldið upp á 60 ára afmæli flugvallarins á Akureyri. Isavia, Flugsafn Íslands, Örninn ásamt fyrirtækjum á Akureyrarflugvelli efndu til hátíðarinnar. Þetta kemur fram á vefsíðu Vikudags. Flugsamgöngur til Akureyrar með landflugvélum hófust á styrjaldarárunum þegar breski herinn lauk flugvallargerð á Melgerðismelum í Eyjafirði. Bandaríkjaher endurbætti svo flugvöllinn og afhenti Íslendingum þegar styrjöld lauk.

Í desember 1954 var nýr flugvöllur tekinn í notkun á landfyllingu við ósa Eyjafjarðarár. Flugmálastjórn Íslands lét gera þann flugvöll. Nýtt flugstöðvarhús var opnað árið 1961 en flugstöðin hefur tvisvar verið stækkuð.

Afmælishátíðin í dag hófst í Flugsafni Íslands en í framhaldi kynntu fyrirtæki á svæðinu starfsemina á flugvellinum.