Akureyrarbær hefur kynnt drög að deiliskipulagi fyrir nýtt íbúðasvæði vestan Borgarbrautar. Áætlað er að á svæðinu geti risið allt að 970 íbúðir á næstu árum og reiknað með að íbúafjöldi verði á bilinu 1.900-2.300. Greint er frá þessu á vef Akureyrarbæjar.

Þar segir að markmiðið sé að búa til vistvænt og grænt hverfi þar sem sjálfbærni sé höfð að leiðarljósi. Blágrænar ofanvatnslausnir, göngu- og hjólastígar í sérrými, aðgengi að fjölbreyttum útivistarsvæðum og kvaðir um trjágróður séu dæmi um þetta.

Gert er ráð fyrir að íbúðir í fjölbýli í nýja hverfinu verði um 77-80% og 20-23% í sérbýli sem þýðir að álíka mikið landsvæði fer undir fjölbýli og sérbýli. Stefnt er á að hefja uppbyggingu úr suðri vegna nálægðar við Síðuskóla, þar sem svigrúm þykir til að fjölga nemendum.

Þá segir jafnframt að tillagan hafi verið mótuð með hliðsjón af hugmyndasöfnun í gegnun samráðsvettvanginn Okkar Akureyrarbæ sem blásið hafi verið til síðastliðið vor. Fram hafi komið margar áhugaverðar og gagnlegar hugmyndir frá íbúum sem nokkrar rötuðu inn í drög að deiliskipulagi.

Áhugasamir geta kynnt sér tillöguna nánar hér .