Tilkoma flugfélagsins Niceair gæti opnað á tækifæri fyrir Akureyri að laða að sér alþjóðlegar ráðstefnur að mati Sigurjónu Sverrisdóttur, verkefnastjóra Meet in Reykjavík hjá Íslandsstofu.

„Akureyri er mjög heillandi áfangastaður og Menningarhúsið Hof hentar vel fyrir ráðstefnur að ákveðinni stærð. Við ættum því að geta markaðssett Akureyri sem næsta áfangastað fyrir ráðstefnur á Íslandi,“ segir Sigurjóna.

Nýlega var tilkynnt um stofnun Niceair sem hyggst hefja regluleg millilandaflug á Akureyri í byrjun sumars. Áætlað jómfrúarflug verður þann 2. júní næstkomandi og mun félagið fljúga til Bretlands, Danmerkur og Spánar. Sigurjóna segir að sterkar flugsamgöngur hafi reynst mikilvægar í markaðssetningu á Reykjavík sem ráðstefnuborg.

„Það verður áhugavert að fylgjast með þróun Niceair og þeim möguleikum sem það opnar fyrir Norðlenska ferðaþjónustu og ekki síst viðskiptaferðamarkaðinn eins og ráðstefnu- og hvataferðamarkaðurinn er oft nefndur.“

Sjá einnig: Líf glæðist á ráðstefnumarkaðnum

Hún nefnir sérstaklega að flug á milli Akureyrar og Danmerkur opni möguleikann á að hýsa norrænar ráðstefnur þar sem Kaupmannahöfn sé talin tengimiðstöð (e. hub) fyrir Norðurlöndin. Margar norrænar ráðstefnur flakki á milli Norðurlandanna og fagni eflaust nýjum áfangastað á Íslandi.

Hof mun setja Akureyri á kortið

Sigurjóna bendir á að í Hofi sé fjölbreytt úrval rýma fyrir stóra jafnt sem minni fundi og ráðstefnur, sem öll eru búin góðum tækjabúnaði. Auk þessa er boðið upp á vinnuaðstöðu fyrir skipuleggjendur funda og veitingaþjónustu fyrir funda- og ráðstefnugesti.

„Hof tekur leikandi á móti ráðstefnu með allt að 500 þátttakendur. Eins og Harpa setti Reykjavík á kortið sem ráðstefnuborg, þá mun Hof setja Akureyri á kortið sem ráðstefnubæ. Ráðstefnumarkaðurinn vill gjarnan vera með kennileiti sem staðfestir getuna til að halda ráðstefnur,“ segir Sigurjóna.

„Akureyri býr yfir styrkum innviðum eins og góðum gistimöguleikum og afþreyingu ásamt nálægð við mikilfenglega náttúru Íslands. Norðlendingar hafa nýtt síðustu tvö ár í að þróa nýjar vörur í upplifun og þjónustu og geta stoltir tekið á móti ferðamönnum að loknum faraldri.“

Einnig geti Háskóli Akureyrar reynst mikilvægur því með honum gefist kostur að tengja ráðstefnur við þekkingar- og vísindasvið áfangastaðarins.

Hún telur einnig að fleiri áfangastaðir á Norðurlandi komi til greina, svo sem Fosshótel Húsavík sem geti hæglega tekið á móti ráðstefnum með þátttöku allt að 100 manns en hótelið býr meðal annars yfir fjórum fundarrýmum.

Heilsársstörfum fjölgi

Sigurjóna bendir á að ráðstefnur séu oft haldnar á haustin og vorin og brúi þar með bilið á milli árstíða hvað varðar fjölda ferðamanna sem sækja áfangastaðinn. Fyrir vikið geti aukin aðsókn í ráðstefnur á Norðurlandi haft í för með sér að auðveldara verði að halda uppi ferðaþjónustu allt árið í kring með fólk í heilsársvinnu.

Spurð um þróunina á viðskiptaferðamarkaðnum, segir Sigurjóna að nýjasta leitnin sé „BLEISURE“ sem er samsett úr „Business“ og „Leisure“. Það feli í sér að ferðamaðurinn stoppi lengur til að njóta áfangastaðarins sem almennur ferðamaður, annað hvort fyrir eða eftir ráðstefnuna sem hann sækir. Hann nýti þannig ferðalagið betur en fækkar mögulega ferðum á móti.

„Hvataferðamarkaðurinn er einnig mjög arðbær og Niceair ætti einnig að opna veruleg tækifæri á þeim markaði.“