Í dag flýgur Icelandair sitt fyrsta flug frá Akureyri til Keflavíkur. Slíkt gerir þeim sem búsettir eru norðan heiða kleift að komast nánast beina leið til helstu áfangastaða Icelandair í Evrópu og Bandaríkjunum. Viðskiptavinirnir geta þá bókað flugið hjá Icelandair og innritað sig alla leið á áfangastað. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Icelandair í dag.

Flogið verður fjórum sinnum í viku til 27. ágúst og tvisvar í viku eftir það til 30. september. Icelandair gera ráð fyrir að um 2500 farþegar fljúgi þessa leið í sumar og að stærstur hluti þeirra, um 80%, verði erlendir ferðamenn. Í tilkynningunni er haft eftir Birki Hólm Guðnasyni, framkvæmdastjóra Icelandair, að valmöguleikinn sé spennandi

„Það er spennandi að bæta Akureyri sem nýjum áfangastað inn í leiðakerfið okkar og tengiflugið sem fer í gegnum Keflavíkurflugvöll. Með þessum hætti erum við að opna nýja leið fyrir ferðamenn frá fjölmörgum öðrum borgum í leiðakerfi okkar til Akureyrar. Akureyri opnast í bókunarkerfum um allan heim sem áfangastaður Icelandair og við teljum okkur vera að færa Akureyri og perlur Norðurlands nær erlendum ferðamönnum og styrkja þannig undirstöður ferðaþjónustunnar á Norðurlandi,” segir Birkir.