*

fimmtudagur, 24. september 2020
Fólk 26. júlí 2020 19:01

Ákvað að stökkva á tækifærið

Sigríður Elín Guðlaugsdóttir hefur verið ráðin til Alvotech sem framkvæmdastjóri mannauðs.

Ritstjórn
Sigríður Elín Guðlaugsdóttir er nýráðin framkvæmdastjóri mannauðs hjá Alvotech.
Aðsend mynd

Fyrst og fremst eru það mannauðsmálin sem heilla mig hvað mest. Ég hef alla tíð starfað hjá fyrirtækjum sem eru eingöngu byggð á mannauði. Lengst af starfaði ég hjá DeCode, meðal annars sem mannauðsstjóri, í um fjórtán ár. Síðan starfaði ég hjá Háskólanum í Reykjavík í um sex ár þar sem ég leiddi til að mynda endurskoðun launasetningar og jafnlaunavottun hjá skólanum. Eftir HR fór ég til verkfræðistofunnar EFLU í upphafi árs 2020,“ segir Sigríður Elín Guðlaugsdóttir sem er nýráðin framkvæmdastjóri mannauðs hjá Alvotech.

Hún mun bera ábyrgð á mannauðsmálum fyrirtækisins á alþjóðavísu ásamt því að starfa með framkvæmdastjórn félagsins í áframhaldandi uppbyggingu þess. Sigríður, sem hefur um 20 ára reynslu af mannauðsmálum og stjórnun, hóf störf hjá EFLU í upphafi árs sem sviðsstjóri mannauðs. Hún segist hafa notið sín í botn þar sem hún sá meðal annars um ráðstafanir sökum COVID. Spurð um ástæðu þess að hún ákvað að færa sig yfir segir hún lyfja- og rannsóknargeirann heilla sig mjög.

„Samhliða mannauðsmálum heillar lyfja- og rannsóknageirinn mig og þá sérstaklega í þessu alþjóðlega umhverfi. Það er eitthvað sem ég fékk að kynnast hjá DeCode og í raun það sem ég kann og veit. Að auki er þessi mikla frumkvöðlahugsun afar spennandi og ákvað ég því að stökkva á þetta tækifæri,“ segir Sigríður.

Sigríður mun halda áfram að starfa hjá EFLU í einn eða tvo mánuði, þar sem hún sér meðal annars um að finna eftirmann sinn en er nú í sumarfríi í Frakklandi. „Við fjölskyldan mættum í gær til Saint-Paul-de-Vence sem er í Suður-Frakklandi. Ferðin var bókuð í janúar, fyrir COVID og höfum við verið að fara fram og til baka um hvort eigi að hætta við en ákváðum að verða af því, allir að sjálfsögðu með grímu,“ segir Sigríður og bætir við að hún vonist til að geta sinnt áhugamálum sínum í utanlandsferðinni.

„Ég er alltaf á kafi í fjallgöngum. Gekk meðal annars á Hvannadalshnjúk og Fimmvörðuháls í vor en samhliða fjallgöngum komst ég upp á lagið með sjósund fyrir nokkrum árum, þá var ekki aftur snúið. Við fjölskyldan ætlum einmitt að reyna að vera ekki í neinu margmenni og því tilvalið að finna fáfarnar strandir og gönguleiðir,“ segir Sigríður en kaldast hefur hún synt í um -2,2 gráðum. Sigríður er mikil fjölskyldukona en hún er kvænt Bjarnhéðni Grétarssyni sem er viðskiptastjóri hjá Öryggismiðstöðinni en kokkur að mennt. Saman eiga þau þrjár dætur.