*

mánudagur, 17. júní 2019
Innlent 24. mars 2019 11:01

Ákvað óvænt að söðla um

Vilhelm Már Þorsteinsson, forstjóri Eimskips, ákvað óvænt að söðla um í starfi eftir 20 ára feril í Íslandsbanka.

Kristján Torfi Einarsson
Vilhelm Már Þorsteinsson á 20 ára feril að baki í Íslandsbanka þar af var hann i 10 ár framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs bankans.
Haraldur Guðjónsson

„Ég var sannarlega ekkert á leiðinni að skipta um starf þegar ég sá forstjórastöðu Eimskips auglýsta í blöðunum enda mjög ánægður í bankanum. Eitthvað kveikti samt í mér. Fyrir það fyrsta þá þekkti ég Eimskip mjög vel vegna þess að Íslandsbanki hefur verið helsti viðskiptabanki félagsins um árabil. Svo eru mikil og náin tengsl Eimskips við atvinnulífið mjög heillandi. Ekki bara er saga félagsins samofin atvinnusögu þjóðarinnar langt aftur í tímann heldur er Eimskip eins og hitamælir á stöðuna í atvinnulífinu hverju sinni. Tengslin eru auðvitað augljós í margvíslegum innflutningi en þau eru það ekkert síður varðandi sjávarútveginn og aðrar útflutningsgreinar.

Á ferðum mínum og heimsóknum undanfarið hef ég verið að teikna upp starfsemina í huga mér og viða að mér upplýsingum til að fylla upp í myndina. Maður grípur til myndlíkinga sem eru manni tamar og því liggur beint við að ég sæki þær til bankareksturs. Á starfsmannafundi fyrir nokkrum dögum lýsti ég þessu þannig að skipareksturinn, sem auk skipa tekur til reksturs á gámum, flutningabílum, vöruhúsum, höfninni o.s.frv., væri eins og inn- og útlán í bankakerfinu. Okkur er treyst fyrir vörum, eins og bönkum er treyst fyrir innlánum, og hlutverk okkar er að launa þetta traust með því að veita eins góða þjónustu og við framast getum. Þetta er kjarninn í fyrirtækinu, þar sem mest af fjármunum félagsins er bundið, og kjölurinn sem veitir félaginu stöðugleika.“

„Flutningsmiðlunin hefur vaxið út frá þessari kjarnastarfsemi og viðleitni okkar til að bæta þjónustu við viðskiptavini. Með því að bjóða upp á almenna flutningsmiðlun erum við að auka þjónustuna við viðskiptavini og koma vörunni frá sendandanum að skipalínum okkar og þaðan áfram á endastöð viðtakandans. Flutningsmiðlunin hefur vaxið út frá þessum kjarna en í dag er hún ekki lengur bundin við okkar skipalínur heldur miðlum við í gegnum hverja þá flutningsleið sem skilar bestum árangri og þjónustu við viðskiptavini. Að þessu leyti er flutningsmiðlunin sambærileg við gjaldeyris- eða verðbréfamiðlun í bönkunum. Hver dagur er nýtt upphaf og miðlararnir mæta nýjum verkefnum og áskorunum á hverjum degi. Í lok dags er árangurinn gerður upp og næsta dag mætir miðlarinn aftur með autt borð fyrir framan sig.

Eimskip hefur undanfarin ár unnið að því að efla flutningsmiðlunina í því augnamiði að auka bæði þjónustuframboð sitt og skjóta fleiri stoðum undir rekstur félagsins. Þessi starfsemi kallar ekki á miklar fjárfestingar í skipum, húsnæði eða tækjabúnaði heldur er fjárbindingin fólgin í því að tryggja starfseminni nægilega rekstrarfjármuni. Hins vegar hefur Eimskip farið þá leið að styrkja flutningsmiðlunina með kaupum á fyrirtækjum á þessu sviði á meginlandi Evrópu.

Nú er stefnan að vinna betur úr þessum fjárfestingum, samþætta enn frekar starfsemi þessara félaga við skrifstofur Eimskips og leita leiða til frekari hagræðingar í rekstrinum. Þetta er ekki stefnubreyting því markmið okkar verður áfram að efla flutningsmiðlunina, auka tekjustreymi og fjölga viðskiptavinum. Leiðin að þessu marki verður í gegnum innri vöxt og betri nýtingu á því kerfi sem er nú til staðar.

Þetta er frekar áherslubreyting en breyting á stefnu. Verkefnið verður eftir sem áður að hámarka arðsemi og halda áfram að veita viðskiptavinum okkar bestu mögulegu þjónustu. Munurinn felst í því að nú verður aukin áhersla lögð á að skila auknu sjóðstreymi frá rekstri á næstu misserum frekar en að fjárfesta á nýjum mörkuðum erlendis,“ segir Vilhelm að lokum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is