Stjórnendur hins sænska AdvInvest, sem er nýr meirihlutaeigandi í upplýsingatæknifyrirtækinu Advania, kusu að nýta ekki fjárfestingarleið Seðlabankans og fá afslátt á krónum þegar fjárfest var í fyrirtækinu, að því er segir í Morgunblaðinu í dag.

Þeir hefðu þá þurft að fjárfesta til að minnsta kosti fimm ára í fyrirtækinu. Þess í stað fá þeir það sem kallað er gulur miði, samkvæmt heimildum Viðskiptamoggans, og eiga því kost á að selja bréfin og fara úr landi með erlendan gjaldeyri.

Heimildir Morgunblaðsins herma að þeir hafi talið að afslátturinn í gjaldeyrisútboðum bankans - sem hefur lækkað úr um 20% í um 10% að undanförnu - hafi ekki verið nægjanlegur til að vega upp á móti þeim kvöðum sem gerðar séu til þess að þessi möguleiki standi til boða. Þeir hefðu þurft að samþykkja kvaðir um bann við hvers kyns ráðstöfun fjárfestingarinnar, þ.m.t. allar veðsetningar.