Meirihluti borgarstjórnar Reykjavíkur felldi í upphafi viku tillögu Sjálfstæðisflokks og Miðflokks um að bjóða skyldi út raforkukaup, umferðarljósastýringu og LED-ljósavæðingu borgarinnar. Þess í stað samþykkti meirihlutinn tillögu um að fela borgarlögmanni að „greina og leggja til viðbrögð“ við úrskurðum kærunefndar útboðsmála sem fallið hafa borginni í óhag.

Málið á sér nokkra forsögu en undanfarin ár hefur Sjálfstæðisflokkurinn í borginni lagt ítrekað til að ýmis þjónusta og verkefni yrðu boðin út. Slíkt væri bæði til þess fallið að auka samkeppni og lækka kostnað borgarinnar. Skemmst er frá því að segja að þar hefur verið talað fyrir daufum eyrum. Samningarnir sem undir eru í málinu hlaupa á hundruðum milljóna ár hvert.

Gert að greiða tíu milljónir í sekt

Hvað raforkukaup, LED-ljósavæðingu og uppsetningu innviða fyrir rafbíla varðar hefur borgin samið beint við Orku náttúrunnar (ON). Sem kunnugt er þar á ferð dótturfélag Orkuveitu Reykjavíkur (OR), sem er að nær öllu leyti í eigu borgarinnar. Það hefur borgin talið sér heimilt á grundvelli undanþáguákvæðis laga um opinber innkaup, sem undanskilur samninga gerða við lögaðila í eigu hins opinbera frá gildissviði laganna. Til að undanþágan teljist uppfyllt þarf yfir 80% af starfsemi lögaðilans að vera innt af hendi í tengslum við verkefni sem honum eru falin af hinum opinbera aðila, í þessu tilfelli Reykjavíkurborg.

Ljósastýringamálin eru eilítið öðruvísi en þar hefur borgin, líkt og fjallað hefur verið um á síðum blaðsins, lengst af samið beint við Smith&Norland um búnað og þjónustu við umferðarljós. Hluti kostnaðarins er síðan greiddur af ríkinu. Undanfarið hafa verk verið boðin út að hluta en skilmálar útboðsins þannig úr garði gerðir að öðrum en Smith&Norland er í besta falli illmögulegt að bjóða í verkin. Þrátt fyrir úrskurði kærunefndar útboðsmála hefur borgin haldið uppteknum hætti .

Framkvæmd innkaupana hafa fallið í grýttan jarðveg þeirra sem telja að þau skuli boðin út. Hafa þau ítrekað verið kærð til kærunefndar útboðsmála sem hefur nú fjórum sinnum, á innan við hálfu ári, komist að þeirri niðurstöðu að framkvæmd borgarinnar standist ekki skoðun. Samningarnir sjálfir hafa að vísu ekki verið felldir úr gildi en þess í stað lagt fyrir borgina að bjóða verkin út. Þá hefur henni verið gert að greiða ríflega tíu milljónir króna í sektir í ríkissjóð.

Væri óþörf tillaga í sveitarfélagi sem fylgdi lögum

„Við höfum fengið fjóra úrskurði kærunefndar útboðsmála sem fallið hafa gegn borginni, tvo vegna ljósastýringar, einn vegna LED-kaupa og síðan kaupa á raforku. Við höfum ítrekað talað fyrir því að bjóða meira út og tekið slík erindi formlega fyrir í innkauparáði. Nú er komin niðurstaða sem er ansi skýr,“ sagði Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn, á borgarstjórnarfundi í vikunni þar sem tillagan var rædd. Bætti hann við að hér væri tækifæri fyrir borgina til að sýna betrun og iðrun. Því væri einboðið að samþykkja tillöguna.

„Í venjulegu sveitarfélagi, sem að færi eftir lögum, þá væri þessi tillaga óþörf. Hún sýnir best hvernig stjórnsýsla borgarinnar er orðin, að kjörnir fulltrúar þurfi að flytja tillögu um að Reykjavíkurborg fari að lögum varðandi útboðsmál,“ sagði Vigdís Hauksdóttir borgarfulltrúi Miðflokksins.

„Það er engin ástæða til að slá þessu máli á frest. Við hljótum að vilja að haga þessum málum með lögmætum hætti, ekki seinna heldur en núna strax og alltaf. Borgin á ekki að skipta við fyrirtæki í eigin eigu, fyrirtæki á samkeppnismarkaði, sem býður ekki samkeppnishæf kjör,“ sagði Hildur Björnsdóttir Sjálfstæðisflokki. Taldi hún einsýnt að sambærileg niðurstaða myndi síðan liggja fyrir þegar kærur vegna hleðslustöðvauppbyggingar tækju að berast.

Meirihlutinn taldi málin flókin

„Innkaupamálin eru ansi flókin og ekki eins einföld og fyrri ræðumenn hafa haldið fram. Þess vegna er gott að njóta krafta dómstóla sem geta vísað okkur veginn og við fengið leiðsögn þaðan. Það er ekki meirihlutinn sem tekur ákvörðun um útboð heldur gera sérfræðingar það,“ sagði Píratinn Dóra Björt Guðjónsdóttir. Að Sabine Leskopf, formanni innkauparáðs, undanskilinni var Dóra eini fulltrúi meirihlutans sem tók til máls um tillöguna.

Í ræðu sinni nefndi Sabine að henni þætti ekki ábyrgt að kjörnir fulltrúar legðu fram tillögur sem fælu í sér afdrifaríkar ákvarðanir, á grundvelli vikugamals úrskurðar, án þess að fá álit frá lögfræðingum, innkaupasérfræðingum og tæknifagfólki borgarinnar. Sagði hún að deiluefni málsins væri fyrrnefnt undanþáguákvæði laganna og þar hefði skyndilega kveðið við nýjan tón hjá nefndinni sem rutt hefði úr vegi áratuga gamalli venju. Rétt er að geta þess að almennt útboðsskylda sveitarfélaga samkvæmt, nýjum lögum um efnið, tók gildi 31. maí 2019.

„Þessi nýja túlkun mun hafa allskonar áhrif á borgina og félög í hennar eigu ef hún fær að standa. Borgarlögmaður hefur ekki skilað áliti sínu á úrskurðunum og ég tel það ekki Reykjavík í hag að ráðast í þetta með þessum hætti án þess að hafa greint málið,“ sagði Sabine.

Umfangið verður að vera 80% en var 4%

Í nýjustu úrskurðum kærunefndarinnar er það rakið hvernig stjórnskipulag OR er en þar hefur borgin tögl og haldir hvað skipun stjórnarmanna varðar. ON er síðan að fullu í eigu OR og skulu minnst þrír stjórnarmenn félagsins vera úr stjórnendahópi OR. Taldi nefndin því fullljóst að skilyrði laganna, um að lögaðili lyti stjórn opinbers aðila, vera fyrir hendi. Nefndin féllst aftur á móti ekki á að skilyrðið um að yfir 80% af starfsemi ON væri innt af hendi við framkvæmd verkefna sem félaginu væru falin af borginni.

„Ráðið verður af gögnum málsins að kaup varnaraðila á þjónustu tengdri viðhaldi, rekstri og LED-væðingu götulýsingar frá Orku náttúrunnar ohf. séu einvörðungu lítill hluti af tekjum félagsins en af ársreikningum Orku náttúrunnar ohf. má ráða að árið 2017 hafi rekstrartekjur félagsins numið 167.455.000 Bandaríkjadölum og 174.703.000 Bandaríkjadölum árið 2018. Enn fremur má ráða af ársreikningi Orku náttúrunnar ohf. 2017 og 2018 að sala félagsins til félaga og stofnana í samstæðu varnaraðila hafi numið 6.458.000 Bandaríkjadölum árið 2017 og 6.762.000 Bandaríkjadölum árið 2018 eða um 4% af rekstrartekjum félagsins fyrir umrædd reikningsár,“ segir í úrskurðinum.

Sambærileg rök voru notuð í málinu sem varðaði útboð á raforku. Var borginni gert að greiða tvær milljónir króna í stjórnvaldssekt í ríkissjóð vegna LED-ljósanna en átta milljónir króna vegna kaupa af raforku milliliðalaust frá ON.