Reimar Pétursson
Reimar Pétursson
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

Laganefnd Lögmannafélags Íslands segir að fjármálaráðherra muni ekki geta innheimt bankaskatt með þeim hætti sem gert er ráð fyrir í tekjuöflunarfrumvarpi sem fylgir fjárlagafrumvarpinu. Þetta kemur fram í umsögn sem Laganefndin sendi efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis þann 29. október siðastliðinn. Reimar Pétursson hæstaréttarlögmaður og formaður Laganefndar ritar undir umsögnina.

Eins og fram hefur komið var ákveðið, þegar fjárlagafrumvarpið var lagt fram, að hækka bankaskatt og leggja slikan skatt einnig á þrotabú föllnu bankanna. Þegar tillögur um skuldaniðurfellingu voru lagðar fram var tekið fram að sá skattur myndi hækka enn meira til að fjármagna niðurfellinguna.

Í umsögnum sem slitastjórn Glitnis og Kaupþings hafa sent efnahags- og viðskiptanefnd segir að ef bankaskattur væri lagður á þrotabú föllnu bankanna myndi það hugsanlega striða gegn jafnræðisreglu og eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Einnig stríddi það gegn ákvæðum um skattaálagningu í stjórnarskránni. Laganefnd Lögmannafélagsins tekur ekki afstöðu til þessa álitaefnis í umsögn sinni.

Hins vegar segir að samkvæmt ákvæði 112. grein gjaldþrotalaga komi til úthlutunar úr þrotabúum við skiptalok að því tilskildu að eignir þrotabús gangi upp í forgangskröfur. Það sé því vandséð hvernig að til greiðslu skattsins eigi að geta komð fyrr en við úthlutun.

Aftur á móti telur nefndin að færa megi tekjuöflunarfrumvarpið i það horf að hægt verði að innheimta skattinn. Þetta verði gert með því að ákvæði frumvarpsins byggði á því að kröfurnar hljóti stöðu í réttindaröð með búskröfum samkvæmt 2. eða 3. tölulið. 110. gr. gjaldþrotalaga.

Hér má sjá álit Laganefndar Lögmannafélagsins.