Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrum utanríkisráðherra og sendiherra, gagnrýndi í spjallþættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun þann seinagang við uppgjör gömlu bankanna og pólitíska ákvarðanafælni.

Árni M. Mathiesen fráfarandi fjármálaráðherra sagðist ekki geta útskýrt seinaganginn við uppgjörsmálin, en sagði mikla fjarveru Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur frá störfum vegna veikinda hafa valdið Samfylkingunni erfiðleikum við ákvarðanatöku.

Árni sagðist ekki geta útskýrt hvers vegna vinnan við uppgjör bankakerfisins gengi svona hægt, en málið sé að stærstum hluta í höndum skilanefnda bankanna sem skipaðar voru af Fjármálaeftirlitinu. Verkefnið væri þó hugsanlega stærra en menn hafi gert ráð fyrir í upphafi. Þá stafaði það að einhverju leyti af því að lánardrottnarnir vildu láta þetta dragast þar sem þeir högnuðust á því. Hann sagði að Alþjóðgjaldeyrissjóðurinn hafi m.a. gagnrýnt hversu seint hafi gengið að endurreisa bankana.

Árni sagði að hluta af þeirri ákvarðanafælni sem verið hafi í kerfinu stafaði m.a. af veikindaforföllum Ingibjargar Sólrúnar formanns Samfylkingarinnar. Án hennar hafi Samfylkingin verið ófær um að taka mikilvægar ákvarðanir.

Kristján Þór Júlíusson, þingmaður tók undir það í þættinum að Ingibjörg Sólrún hafi verið mikilvæg í þessu dæmi, þar sem hún hafi verið „límið” sem hélt samstarfinu gangandi.

Aðspurður um það hvort hann hygðist sækjast eftir forystuhlutverki í Sjálfstæðisflokknum sagði Kristján: „Ég ætlað að skoða möguleika mín á því.” Sagði hann marga hafa komið að máli við sig varðandi málið.

Árni M. Mathiesen sagðist hins vegar ekki ætla að taka þátt í slagnum um forystuhlutverk í flokknum.