Þær ákvarðanir sem teknar voru á eigendafundi Orkuveitu Reykjavíkur hinn 3. október sl. munu ekki skerða efnahag Orkuveitunnar. Þetta er meðal þess sem fram kemur í svari Reykjavíkurborgar til umboðsmanns Alþingis um samruna Reykjavík Energy Invest og Geysis Green Energy. Svar Reykjavíkurborgar var sent umboðsmanni í gær. “Nauðsynlegt er að fram komi að ekki var verið að selja eigur OR. Allir þeir hlutir sem seldir hafa verið eru nýtt hlutafé og verðmæti eignarhluta í félögum er allt enn til staðar. Þær ákvarðanir sem teknar voru á eigendafundi OR munu ekki skerða efnahag OR,” segir í svarinu.

Þar segir að ennfremur að hið bókfærða virði eigna, sem látnar voru inn í REI, hafi byggt að meginstofni til á mjög nýlegum viðskiptum með eignirnar. “Sem dæmi má nefna að gengi hlutarins í Enex, tók mið af nýlegu mati á virði félagsins í tengslum við hlutafjáraukningu. Hluturinn í Hitaveitu Suðurnesja er metinn á sama verði og hann var keyptur á fyrr á þessu ári. GGE lagði sinn hlut í hitaveitunni, sem var um það bil, helmingi stærri, inn á sama gengi.”