*

miðvikudagur, 4. ágúst 2021
Innlent 1. nóvember 2004 13:49

Ákváðu sameiginlega að bæta framlegð olíufélaganna

Ritstjórn

Mikil áhersla var á það lögð á árinu 1997 að hækka framlegð olíufélaganna enda var afkoma þeirra þá óviðunandi að mati stjórnenda. Gögn Samkeppnisstofnunar sýna mikil samskipti félaganna um verðlagningu í þessu skyni. Í tölvupósti frá Einari Benediktssyni, forstjóra Olís, til samstarfsmanna hans frá því í mars 1997 segir m.a.: "Minni á umræðuna um að ná framlegð upp um ca 0,70 per líter í öllum tegundum, sem "allir" hafa tekið undir. Megum ekki missa þetta fína tækifæri til lagfæringa, sem varla skapast aftur í bráð. Látið mig vita ef þið fáið ekki undirtektir svo ég geti þá tekið málið upp á öðrum vettvangi áður en endanleg ákvörðun er tekin."

Að sögn Samkeppnisstofnunar vísar orðalagið til þess að olíufélögin þrjú hafi orðið sammála um að hækka álagningu þannig að framlegð á öllum eldsneytistegundum ykist um 70 aura á hvern lítra. Þetta áttu undirmenn forstjórans að gera í samráði við starfsmenn hinna olíufélaganna. Ef það gengi ekki eftir yrði málið tekið upp á "öðrum vettvangi", þ.e. í viðræðum forstjóra olíufélaganna.

"Þetta rímar við samskipti sem voru um verðhækkun 12 á eldsneyti í byrjun sumars 1997. Þá bárust um það skilaboð til Olís frá Olíufélaginu
að verðhækkun yrði frestað um nokkra daga. Í tölvupósti sem forstjóri Olís sendi framkvæmdastjóra fjármálasviðs hjá félaginu segir hann af þessu tilefni: "Ótrúlegt hvað þetta ferli er alltaf þungt hjá þeim."

Vegna samskipta tiltekins starfsmanns hjá Olís við Skeljung í tilefni af m.a. tiltekinni verðhækkun á eldsneyti miðlar stjórnandi hjá Olís af reynslu sinni til samstarfsmanna sinna í tölvupósti með þessum orðum:

"Reynsla ... í verðlagsmálum og verðbreytingum segir mér að þetta mál
verði aldrei leyst í gegnum síma eða með einhverjum skilaboðum. Eina
leiðin er að ná viðkomandi aðilum á fund og kortleggja lausnina og láta
síðan forstjórana samþykkja það á forstjórafundi."

Starfsmaður Olís sem annaðist verðlagningu hefur lýst þessu þannig að hann og starfsmenn hinna félaganna sem sinntu þessum málaflokki hafi verið; "undir stöðugum þrýstingi frá yfirmönnum sínum um að bæta framlegð félaganna, enda var þeim kunnugt um að forstjórar félaganna hittust reglulega og ræddu m.a. um að bæta þyrfti framlegð félaganna."

Í verðsamráði olíufélaganna var þeim ekkert óviðkomandi. Auk þess að fjalla sameiginlega um verðlagningu á eldsneyti og öðrum olíuvörum fjölluðu olíufélögin sín á milli um að leggja afgreiðslugjöld á viðskiptavini vegna dreifingar á eldsneyti, taka upp gjöld vegna tanka og annars búnaðar, leggja á flutningsgjald vegna smárra sendinga og útskriftar- og færslugjald til að mæta kostnaði við sendingu reikninga og gíróseðla. Þá hittust félögin á fundum til að takmarka afslátt til viðskiptavina og Olís
og Skeljungur samræmdu m.a. afslátt sinn til Slysavarnafélags Íslands á Vestfjörðum.

Til að nefna nokkur dæmi um samstarfið í verðlagsmálum á árunum 1998?2001 má benda á eftirfarandi: - Hjá Skeljungi fannst skjal sem er frá maí 1998 sem ber heitið "Framlegðartölur 1998". Skjalið hefst með þessum orðum: "Samráðsnefnd olíufélaganna hefur ákveðið eftirfarandi framlegðartölur fyrir 1998."