HB Grandi hf. og stærstu eigendur félagsins, Vogun hf., Arion banki hf. og Fiskveiðahlutafélagið Venus hf., hafa náð samkomulagi um að hefja undirbúning að því að hlutir félagsins verði teknir til viðskipta á Aðalmarkaði Kauphallarinnar, Nasdaq OMX Iceland hf.

Viðskipti með hluti félagsins eru nú á First North markaðstorgi Kauphallarinnar og hyggjast aðilar leitast eftir afskráningu af þeim vettvangi sem taki gildi frá og með ársbyrjun 2014. Í tilkynningu á vef HB Granda segir að undirbúningur að skráningu á Aðalmarkað muni hefjast innan skamms og mun fyrirtækjaráðgjöf Arion banka hf. annast undirbúninginn.

Tæplega þriðjungshlutur seldur í útboði
Áður en til skráningar á Aðalmarkað kemur hyggjast framangreindir hluthafar bjóða til sölu allt að 32% eignarhlut í HB Granda hf. Markmið sölunnar verður að stuðla að dreifðara eignarhaldi á félaginu og auka seljanleika hlutabréfa þess en viðskipti með hluti félagsins á First North hafa verið takmörkuð. Vonir standa til þess að viðskipti með hluti félagsins á Aðalmarkaði hefjist á vormánuðum næsta árs.

„HB Grandi er eitt af öflugustu sjávarútvegsfélögum landsins með um 800 starfsmenn til sjós og lands. Afkoma félagsins hefur verið góð undanfarin misseri og lögð hefur verið áhersla á að styrkja landvinnslu félagsins. Nýverið var fjárfest í tveimur uppsjávarskipum sem munu ná betri meðferð afla en eldri skip sem þau leysa af hólmi. Það er ánægjuefni að sem flestum gefist nú frekari kostur á að fjárfesta í HB Granda og þar með íslenskum sjávarútvegi,“ segir Kristján Loftsson, stjórnarformaður HB Granda hf, í tilkynningunni.

„Við fögnum því að hafa náð saman um skráningu HB Granda á Aðalmarkað. Við teljum mikilvægt að koma þessu öfluga sjávarútvegsfyrirtæki á Aðalmarkað, sem við teljum gott fyrir sjávarútveginn og áframhaldandi uppbyggingu hlutabréfamarkaðar hér á landi og væntum þess að almenningur og fjárfestar sýni þessu mikinn áhuga,“ segir Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka hf.

Hluthafafundur í dag
Hluthafafundur í HB Granda fór fram í dag. Auk þess að ræða skráningu á Aðalmarkað var staðfest hlutafárhækkun vegna kaupa á öllum hlutum í Vigni G. Jónssyni hf. Einnig var samruni við Laugafisk ehf. staðfestur.

Fiskifréttir fjalla einnig um söluna á HB Granda.