Harpa Einarsdóttir yfirhönnuður og Nana Alfreds standa á bak við merkið ZISKA. Þær segja að mikil áhersla sé á listræna uppsetningu sem sé ákveðin sköpunarútópía útaf fyrir sig sem geri Reykjavík Fashion Festival að kjörnum viðburði til að ná þeirri tilfinningu fram.

Hvernig mynduð þið lýsa þeirri fatalínu sem þið kynnið á RFF?
Línan heitir „Just Ride“ og er innblásin af mongólskum arnarveiðimönnum. Sniðin eru sum í anda þessara stórfenglegu manna sem ríða á fákum sínum og nota erni til að veiða í matinn. Harpa er alin upp innan um hesta og upplifun hennar við að þjóta um í stórbrotnu landslagi hefur haft mikil áhrif á túlkun hennar á því hvað hamingja er. Þetta frelsi og tenging við náttúruna reynir hún að láta skína í gegnum hönnun sína og listsköpun og draga þann neista inn í amstur hversdagsleikans. Í bland við einstök snið, hágæða efni og einstakt skynbragð á liti og form þá sýnir þessi lína ákveðinn þroska og einfaldleika sem mun láta konum líða eins og ákveðnum en hógværum ljónynjum.

Hversu miklu máli skiptir það fyrir íslenska hönnun að hafa hátíð eins og RFF og þá hvers vegna?
RFF er orðin glæsileg hátíð og er búin að þróast til hins betra með hverju árinu sem líður. Vonandi er þetta bara byrjunin á því að setja Reykjavík á kortið sem tískuborg. Að taka þátt í RFF er langt frá því að vera á allra færi, en setur þó um leið ákveðinn standard fyrir viðburðinn. En það vantar algjörlega að styðja við bakið á ungum framsæknumhönnuðum og held ég að það sé löngu tímabært að setja upp svipaðan viðburð fyrir grasrótina eða gefa þeim hönnuðum sem þykja líklegir til velgengni færi á að sýna á slíkum viðburði. Jafnvel gæti RFF alltaf boðið einum ungum hönnuði að taka þátt hverju sinni.

Nánar er fjallað um málið í blaðinu Tíska sem fylgdi Viðskiptablaðinu síðastliðinn fimmtudag. Áskrifendur geta nálgast tölublaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð .