Upplýsingar um lífeyrisskuldbindingar ríkja er ekki að finna í samanburðartölum OECD. Guðlaugur Þór Þórðarson alþingismaður segir í samtali við Morgunblaðið í dag að ástæðan sé sú að lífeyrisskuldbindingar margra ríkja séu svo miklar að það komi sér illa fyrir þau að hafa tölurnar með í samanburðinum.

Fram kemur í frétt Morgunblaðsins að fá ríki innan OECD hafi lífeyrissjóði þar sem raunveruleg sjóðsmyndun á sér stað. Af 34 ríkjum sé lítil sjóðsmyndun í 21 ríki og eignir lífeyrissjóða óverulegar. Á Íslandi eru eignir lífeyrissjóða hins vegar talsvert miklar og lífeyrisgreiðslur hins opinbera lítill hluti af VLF.

Guðlaugur segir að Ísland standi vel að vígi þegar kemur að lífeyrisskuldbindingum og því sé mikilvægt að slíkar tölur séu með í samanburði við önnur lönd. Hann bendir á að við séum sífellt í samkeppni við önnur lönd um fjárfestingar og því sé mikilvægt að við getum bent á samanburðartölur þar sem við erum í sterkri samkeppnisstöðu. Því væri betra ef upplýsingar um lífeyrisskuldbindingar ríkja væru með í samanburðartölunum frá OECD.