Augljóst er að grundvallarmunur er, annars vegar á rétti ríkisins til að takmarka rétt fólks til þess að kaupa erlenda gjaldmiðla fyrir krónur og, hins vegar því að takmarka rétt manna til þess að hagnýta eigur sínar í erlendum gjaldmiðli, að sögn Hróbjarts Jónatanssonar, hæstaréttarlögmanns.

Í grein sem hann ritar í Viðskiptablaðið segir hann að sú spurning vakni hversu langt ríkisvaldið megi ganga í því að banna mönnum að hagnýta erlendar peningalegar eignir sínar, án þess að í því felist óbein eignarupptaka. Náskylt þessu álitaefni séu þær lögbundnu takmarkanir sem banna eigendum s.k. jöklabréfa að ráðstafa krónueignum sínum að vild.

„Íþyngjandi inngrip í eignarréttindi með gjaldeyrishöftum kann að vera lögmætt um tiltölulega skamman tíma til að bregðast við sérstökum efnahagsaðstæðum en er hvorki lögmætt né ásættanlegt sem viðvarandi ástand í lýðræðisþjóðfélagi. Lagaboð sem hindra fólk í að fénýta erlendar eignir sínar að viðlagðri refsingu, er algerlega ósamrýmanlegt ákvæði stjórnarskrárinnar um friðhelgi eignaréttarins. Á þessum grunni ber að afnema höftin strax, eða a.m.k. að breyta þeim þannig að fólk geti fénýtt erlendar eigur sínar án íþyngjandi afskipta ríkisins og án þess að lenda í tugthúsi,“ segir Hróbjartur í greininni, sem lesa má hér .