Stjórnir Lífeyrissjóðsins Framsýnar og Lífeyrissjóðs sjómanna hafa ákveðið að halda áfram undirbúningi í tengslum við hugsanlega sameiningu sjóðanna. Stefnt er að því að kynna drög að samkomulagi um sameiningu fyrir aðildarfélögum og sjóðfélögum síðar á þessu ári.

Stjórnir sjóðanna gerðu með sér samkomulag í apríl sl. um að kanna hvort hagkvæmt gæti verið að sameina sjóðina í þeim tilgangi að styrkja tryggingafræðilega stöðu þeirra, efla eignastýringu, auka hagkvæmni í rekstri og bæta þjónustu við sjóðfélaga.

Í júní sl. komst viðræðunefnd stjórna sjóðanna að þeirri niðurstöðu að margt hefði komið fram sem mælti með sameiningu og samþykkt var að vinna áfram að undirbúningi málsins.

Viðræður sjóðanna hafa gengið samkvæmt áætlun og undanfarið hefur verið unnið að samræmingu réttindakerfa og samþykkta fyrir sameinaðan sjóð. Verið er að þróa kerfi aldurstengdrar rétttindaávinnslu og nýjar aðferðir til að tryggja hagsmuni þeirra sem nú greiða iðgjöld til sjóðanna í jafnri réttindaávinnslu segir í tilkynningu frá sjóðunum.