Í orkufrumvarpi iðnaðarráðherra, Össurar Skarphéðinssonar, er kveðið á um að ríki, sveitarfélögum og fyrirtækjum sem alfarið eru í þeirra eigu verði óheimilt að framselja beint eða óbeint og með varanlegum hætti vatns- og jarðhitaréttindi. Einungis verður heimilt að veita tímabundinn afnotarétt að slíkum réttindum til allt að fjörutíu ára í senn. Lagt er til að forsætisráðherra verði falið að semja um endurgjald fyrir afnotarétt í eigu ríkisins, en hann fer þegar með það umboð varðandi nýtingu réttinda í þjóðlendum. Frumvarpið hefur verið samþykkt í ríkisstjórn og er nú til meðferðar í stjórnarflokkunum.

Öll veigamestu orkufyrirtæki landsins eru í eigu hins opinbera, það er að segja ríkis og/eða sveitarfélaga. Undantekningin er Hitaveita Suðurnesja hf. Geysir Green Energy á 32% hlut í HS. Iðnaðarráðherra fól Eiríki Tómassyni prófessor að láta í ljós álit sitt á því hvort fyrrgreint ákvæði um bann við framsali réttinda gæti náð til HS. Eiríkur komst að þeirri niðurstöðu að umtalsverður vafi léki á því að það myndi samrýmdast 72. grein stjórnarskrárinnar sem fjallar um friðhelgi eignarréttarins. Yrði ákvæðið með öðrum orðum látið ná til HS væru, að mati Eiríks, nokkrar líkur á að Geysir Green ætti rétt á bótum úr hendi ríkisins.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið á pdf formi hér á vb.is. Þeir sem ekki hafa slíkan aðgang geta sótt um hann hér .