Samkeppniseftirlitið gaf út ákvörðun í síðustu viku þar sem Norvik, móðurfélag Byko, var sektað um 650 milljónir króna vegna brots Byko gegn samkeppnislögum. Byko hefur tekið ákvörðun um að kæra úrskurðinn til áfrýjunarnefndar samkeppnismála.

Jón Helgi Guðmundsson, forstjóri Norvik, sagði í samtali við Viðskiptablaðið í síðustu viku að hann væri miður sín yfir þessari niðurstöðu. Sagði hann að með dómi Héraðsdóms Reykjaness, í sakamáli gegn starfsmönnum Byko og Húsasmiðjunnar vegna hinna meintu brota, hafi verið tekið efnislega á samkeppnismálinu. Þar hafi verið komist að þeirri niðurstöðu að ekkert verðsamráð hafi átt sér stað, heldur þvert á móti að hörð samkeppni hafi ríkt á milli félaganna.

„Eðli máls samkvæmt verða forsvarsmenn fyrirtækja, sem svona ákvörðun beinist gegn, ósáttir við að þurfa að greiða sekt sem þessa,“ segir Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, í samtali við Viðskiptablaðið. „Ég ætla hins vegar ekki að tjá mig frekar um þetta mál í fjölmiðlum."

Heiðrún Lind Marteinsdóttir, héraðsdómslögmaður og sérfræðingur í samkeppnisrétti, er ósammála þessari túlkun Páls Gunnars. „Það læðist að manni sá óþægilegi grunur að það komi ákvörðun núna frá Samkeppniseftirlitinu, þegar málið er á milli dómstiga, í þeirri tilraun að hafa áhrif á málsmeðferðina fyrir Hæstarétti,“ segir hún.

Heiðrún Lind segir að þrátt fyrir að um tvö sjálfstæð mál sé að ræða séu þau auðvitað nátengd. Þeir sem ákærðir hafi verið í sakamálinu geti borið refsiábyrgð fyrir að framkvæma samráðsbrot í andstöðu við 10. gr. samkeppnislaga. Héraðsdómur telji að ekkert samráð hafi átt sér stað í andstöðu við 10. gr. samkeppnislaga, ef frá sé talin hvatning til samráðs í einu tilviki.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .