Ráðgerður samruni Vodafone og Tals var á engan hátt forsenda fyrir rekstrar- og þjónustuáætlunum Vodafone. Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins mun því ekki hafa nein áhrif á rekstur Vodafone, segir í tilkynningu frá Vodafone. Samkeppniseftirlitið tilkynnti í dag að það heimili ekki samruna félaganna. „Fyrirtækið mun halda sínu striki, halda áfram að veita framúrskarandi þjónustu og vera fyrirmynd annarra á markaðnum,“ segir í tilkynningu frá Vodafone.

„Þótt málið sé hér með úr sögunni er Vodafone stoltur yfir því, að keppinautar Vodafone hafi lagt sig fram um að eignast hlut í fyrirtækinu - jafnvel þótt ekki hafi orðið af viðskiptunum. Áhugi í þá veru er til marks um sterka stöðu Vodafone og skýra framtíðarsýn,“ segir ennfremur.

Fyrirhuguð sameining byggði á kaupum fjárfestingasjóðsins Auðar 1 og Kjartans Arnar Ólafssonar fjárfestis á 10% hlut í Vodafone. Kauptilboð gerði ráð fyrir að Auður 1 og Kjartan Örn greiddu fyrir hlutinn með eignarhlut sínum í Tali, sem er að fullu í þeirra eigu, og í framhaldinu yrðu félögin sameinuð. Samkomulag þess efnis var gert með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins, sem leggst gegn samrunanum. Fyrir vikið verður ekkert af viðskiptunum og umrætt kauptilboð fellur því sjálfkrafa niður, segir Vodafone.