Þótt Össur hf. hafi sótt um afskráningu af íslenskum markaði Nasdaq OMX frá og með næsta föstudegi munu viðskipti með hlutabréf félagsins halda áfram hér á landi enda hefur kauphöllin ákveðið að halda áfram viðskiptum með bréf félagsins undir auðkenninu OSSRu en fram að þessu hafa viðskipti með bréf Össurar verið undir auðkenninu OSSR.

Í nýlegu fréttabréfi IFS greiningar er ákvörðun kauphallarinnar sögð fordæmalaus en Páll Harðarson, forstjóri Nasdaq OMX á Íslandi, segir svo alls ekki vera. Að hans sögn er ákvörðun kauphallarinnar sambærileg ákvörðun kauphallarinnar í Stokkhólmi að halda áfram viðskiptum með hlutabréf finnska fjarskiptarisans Nokia árið 2007 og þá hafi sænska kauphöllin einnig tekið 25 stærstu fyrirtækin í kauphöllinni í Osló (sem er utan Nasdaq OMX) til viðskipta árið 2009. „Nokia er í sænsku OMXS30 vísitölunni og nærtækast væri að líta á þetta sem viðurkenningu á mikilvægi félaganna sem eiga í hlut,“ segir hann.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.