Bryndís Kristjánsdóttir, skattrannsóknastjóri, telur þá ákvörðun stjórnvalda í Lúxemborgar að hrinda í framkvæmd reglum Evrópusambandsins um upplýsingagjöf um bankainnstæður, jákvætt skref í baráttunni gegn skattaundanskotum. Er þetta haft eftir henni á vef RÚV .

Tilkynnt var um ákvörðunina í gær og er miðað við að reglurnar öðlist gildi í ársbyrjun 2015. Bryndís bendir á að í tvísköttunarsamningi Íslands og Lúxemborgar séu raunar ákvæði um samvinnu vegna skattrannsókna.

„Hérna sýnist mér að það sé verið að ganga skrefinu lengra með því að þeir munu veita upplýsingar um bankainnstæður sjálfvirkt, þ.e.a.s. sjálfkrafa, án sérstakrar beiðni frá skattayfirvöldum". Þar með ætti að fást töluvert meira svigrúm til að rannsaka mál þar sem grunur leikur á undanskotum. Reglurnar eru hins vegar ekki afturvirkar og gagnast því ekki til að rannsaka umsvif íslensku bankanna í Lúxemborg fyrir hrun.