*

miðvikudagur, 15. júlí 2020
Innlent 4. september 2019 12:28

Ákvörðun MDE kynnt á þriðjudag

Það liggur fyrir í næstu viku hvort Landsréttarmálið fer fyrir efri deild Mannréttindadómstólsins eður ei.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Ákvörðun efri deildar (e. Grand Chamber) Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE) um það hvort Landsréttarmálið verði tekið þar fyrir mun liggja fyrir næstkomandi mánudag. Ákvörðunin verður hins vegar ekki kunngjörð fyrr en á þriðjudag. Þetta kemur fram á vefsíðu dómstólsins.

Dómur MDE í máli Guðmunds Andra Ástráðssonar gegn ríkinu var kveðinn upp í mars. Þar komst dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að Landsréttur hefði ekki verið skipaður lögum samkvæmt og því hefði verið brotið gegn rétti Guðmundar við meðferð máls hans. Krafa Guðmundar var studd þeim rökum að einn dómari í málinu, sem var játningarmál, hefði ekki verið réttilega skipaður vegna þeirrar ákvörðunar þáverandi dómsmálaráðherra, Sigríðar Á. Andersen, að færa hann framar á lista hæfnisnefndar við mat á dómaraefnum.

Þrír dómarar til viðbótar voru í sömu stöðu og téður dómari og hafa þau fjögur ekki sinnt dómarastörfum við Landsrétt frá því að dómur MDE var kveðinn upp. Hluti þeirra hefur óskað eftir launuðu leyfi frá störfum svo unnt sé að setja dómara í þeirra stað.

Ef efri deildin tekur málið fyrir hefur hluti umræddra dómara í hyggju að snúa aftur til starfa á meðan málið er til meðferðar fyrir efri deildinni. Verði ekki fallist á beiðni ríkisins um slíka fyrirtöku stendur fyrri dómur MDE.

Nýr dómsmálaráðherra tekur við embætti á ríkisráðsfundi næsta föstudag. Ekki liggur fyrir hver það verður eða hvort frekari hrókeringar verða í ríkisstjórn.

Stikkorð: Landsréttur