Refsingu í skattahluta Baugsmálsins svokallaða var frestað af Héraðsdómi í dag. Þetta er í raun vægasta niðurstaða fyrir ákærða í sakamáli fyrir utan hreina sýknu, að því er Einar Þór Sverrisson, hæstaréttarlögmaður segir. Voru ákærðu, Jón Ásgeir Jóhannesson, Kristín Jóhannesdóttir og Tryggvi Jónsson sýknuð í nokkrum ákæruliða en sakfelld í öðrum.

Hins vegar var talið að hinn mikli dráttur sem orðið hafði á málarekstrinum fæli í sér brot á mannréttindum hinna ákærðu. Eins og áður segir var ákvörðun refsingar frestað í eitt ár og fellur möguleg refsing niður að þeim tíma liðnum. Er því um vægari niðurstöðu fyrir ákærðu en ef um skilorðsbundna refsingu að ræða.

Helgi Magnús Gunnarsson, vararíkissaksóknari, sagði við aðalmeðferð málsins að við brotunum lægi allt að sex ára fangelsi og sektirnar ættu að lágmarki að vera tvöfaldur ávinningurinn og að hámarki tífaldur.