Síminn mun áfrýja sekt Samkeppniseftirlitsins á hendur fjarskiptafyrirtækisns vegna verðlagningar á Enska boltanum. Síminn telur ákvörðunina ekki aðeins mikil vonbrigði heldur einnig skaðlega fyrir samkeppni í landinu.

Að mati Símans skýtur það afar skökku við, nú þegar loks er til staðar hörð samkeppni um sýningu á íþróttaefni hér á landi, að Samkeppniseftirlitið telji rétt að beita Símann háum fjársektum vegna sams konar pakkatilboða og tíðkuðust yfir áratugaskeið af þeim aðila sem hefur verið markaðsráðandi á áskriftarsjónvarpsmarkaði um árabil, 365 (nú Sýn), en þetta mál er einmitt tilkomið vegna kvörtunar Sýnar.

„Samkeppniseftirlitið hefur ítrekað ákveðið að sama háttsemi Sýnar og áður 365 miðla væri ekki athugaverð. Gat Síminn því ekki annað en verið í góðri trú um verðlagningu á umræddri þjónustu félagsins,“ segir í tilkynningu Símans.

„Verð á enska boltanum hefur ekki aðeins lækkað til neytenda eftir að Síminn tók við sýningarréttinum heldur hafa fleiri heimili aðgang að þjónustunni en nokkru sinni fyrr. Annað íþróttaefni sem aðrir bjóða upp á hefur einnig lækkað á sama tíma, væntanlega vegna aukinnar samkeppni frá Símanum, og því neytendum til hagsbóta en ekki skaða.

Þegar Síminn hóf undirbúning að sýningum frá ensku úrvalsdeildinni var horft til þess að gera vöruna sem aðgengilegasta öllum á sem besta mögulega verði. Það gekk eftir enda Síminn Sport aðgengileg á öllum dreifikerfum landsins, gömlum sem nýjum og opin öllum áskrifendum óháð því hvar viðkomandi kýs að hafa fjarskiptaþjónustu sína.

Neytendur hér á landi hafa aldrei áður haft jafn greiðan aðgang að enska boltanum, á jafn hagkvæmu verði. Það kann nú að breytast því ákvörðun Samkeppniseftirlitsins virðist við fyrstu skoðun geta leitt til þess að Símanum verði nauðugur einn kostur að hækka áskrift að sjónvarpsefni verulega.“

Þessi ákvörðun Samkeppniseftirlitsins mun hafa neikvæð áhrif á afkomu Símans þar sem sektin verður gjaldfærð á öðrum ársfjórðungi. Ný EBITDA spá Símans fyrir árið 2020 er 9,9 – 10,3 milljarðar króna að teknu tilliti til sektarinnar.