Katrín Jakobsdóttir, formaður VG,  segir að þrátt fyrir orð Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, um að gætt verði að sjálfstæði Seðlabankans hljóti tíðindi morgunsins að skoðast í ljósi orða forsætisráðherra að undanförnu. „Þessi ákvörðun um að auglýsa stöðu seðlabankastjóra hlýtur að fela í sér skilaboð í ljósi orða forsætisráðherra á sunnudaginn,“ segir Katrín. Hún hefur óskað eftir beiðni um sérstaka umræðu á Alþingi um málefni Seðlabankans.

Tilkynnt var í morgun að fjármála- og efnahagsráðherra hyggst auglýsa stöðu seðlabankastjóra lausa til umsóknar. Breytingar verða gerðar á lögum um seðlabankann en ekki liggur fyrir hvort bankastjórarnir verði einn eða þrír.

Bjarni Benediktsson , fjármála- og efnahagsráðherra, segir að til greina komi að hafa einn bankastjóra og tvo aðstoðarseðlabankastjóra. Samkvæmt núgildandi fyrirkomulagi er einn seðlabankastjóri og annar til vara. Fyrir árið 2009 voru þrír seðlabankastjórar.

Katrín segir að í frumvarpi um fjármálastöðugleika frá því í haust hafi verið gert ráð fyrir tveimur aðstoðarseðlabankastjórum. „Ég vil fá það á hreint hvort hugmyndin sé að standa við þær hugmyndir eða hvort það séu einhverjar aðrar hugmyndir fyrirhugaðar,“ segir Katrín..

Bjarni segir að munurinn á því fyrirkomulagi að hafa einn seðlabankastjóra og tvo til vara annarsvegar og hins vegar að hafa þrjá seðlabankastjóra sé sá að samkvæmt síðargreinda fyrirkomulaginu sé bankastjórnin fjölskipað stjórnvald. Samkvæmt fyrrgreinda fyrirkomulaginu hafi einn bankastjóri aftur á móti meiri völd en hinir tveir.