Árni Guðmundsson framkvæmdastjóri Gildis lífeyrissjóðs segir að Rannveig Rist, forstjóri Rio Tinto á Íslandi, hafi ekki ráðfært sig við sjóðinn áður en hún tók ákvörðun um að segja sig úr stjórn HB Granda.

Eins og Viðskiptablaðið greindi fyrst frá á miðvikudagskvöld ákvað Rannveig að segja sig úr stjórninni vegna þess að hún var ósátt við ákvörðun meirihluta stjórnar um að segja Vilhjálmi Vilhjálmssyni upp sem forstjóra fyrirtækisins. V iðskiptablaðið hefur jafnframt fjallað ítarlega um deilurnar innan stjórnarinnar um forstjóraskiptin.

Sat í stjórninni með stuðningi Gildis

Rannveig sat í stjórninni meðal annars með stuðningi Gildis, en lífeyrissjóðurinn hefur að sögn Árna ákveðið að standa við samkomulagið um að halda áfram í hluthafahóp HB Granda.

„Ákvörðunin kom mér á óvart,“ segir Árni sem segist þó ekki hafa sest yfir lagalegar hliðar þess að skipt hafi verið um forstjóra eða að stjórnin uppfylli ekki lengur kröfur um kynjahlutföll líkt og rætt hefur verið um í fjölmiðlum í dag.

„En það er eitthvað sem þarf að skoða og geri ég ráð fyrir að stjórn félagsins taki fljótlega ákvörðun um næstu skref. Ég get ekki ímyndað mér annað en að stjórnin boði til hluthafafundar til þess að kjósa nýja stjórn. Að mínu mati getur hún ekki starfað svona.“

Samkomulagið heldur þrátt fyrir atburðarrásina

Spurður hvort þessar hræringar hafi ekki verið tilefni til að endurskoða samkomulagið um að taka ekki yfirtökutilboðinu sem rennur út klukkan 17:00 í dag segir hann að það sé enn niðurstaðan eftir yfirlegu. „Að sjálfsögðu var það einn af þeim möguleikum sem voru skoðaðir, hvort þetta væri forsendubrestur gagnvart þessu samkomulagi,“ segir Árni.

„Samkomulagið er samt sem áður óbreytt þrátt fyrir alla þessa atburðarás. Nema eitthvað breytist í dag, sem mér finnst ólíklegt, þá höfum við tekið þá ákvörðun að standa við samkomulagið.“

Gildi er eigandi að 8,6% eignarhlut í HB Granda, og er þar með fjórði stærsti eigandinn á eftir Brim með 34%, Lífeyrissjóði verslunarmanna með tæp 14% og A deildar LSR með um 10%.

Festa seldi en ekki Lífeyrissjóður verslunarmanna

Guðrún Hafsteinsdóttir stjórnarformaður Lífeyrissjóðs verslunarmanna segir einnig að hvorki forstjóraskiptin né úrsögn Rannveigar breyti neinu um samkomulagið um að selja ekki hlutinn í HB Granda að því er Morgunblaðið greinir frá.

Hins vegar hefu r lífeyrissjóðurinn Festa selt sinn hlut en hann nam um 1,28% í félaginu. Ástæðan er sögð sú að sjóðurinn hafði áhyggjur af þrengra eignarhaldi HB Granda.