EFTA-dómstóllinn kvað í dag upp dóm í máli á sviði ríkisaðstoðar sem höfðað var af Samtökum banka og verðbréfafyrirtækja til ógildingar á ákvörðun Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA), segir í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Ákvörðun ESA frá 11. ágúst sem tekin var að lokinni forathugun,
byggði á því að ríkisaðstoð til handa Íbúðalánasjóði væri samrýmanleg 2. mgr. 59. gr. EES-samningsins þar sem hlutverk Íbúðalánasjóðs, sbr. lög um húsnæðismál nr. 44/1998, væri meðal annars að veita þjónustu er hefði almenna efnahagslega þýðingu.

Þessi ákvörðun ESA var dæmd ógild með dómi EFTA-dómstólsins í dag. Byggir dómurinn á því að umrædd ákvörðun hafi verið haldin formgalla þar sem vafi hafi leikið á því að mati dómsins hvort að ríkisaðstoðin samrýmdist framkvæmd EES-samningsins. Vegna þessa vafa hafi ekki
verið rétt að taka ákvörðun að lokinni forathugun heldur hafi átt að hefja
formlega rannsókn.

Í úrlausn dómsins kemur nánar tiltekið fram að þjónusta sem sé ætlað að ná þeim markmiðum sem hinum svonefndu almennu lánum Íbúðalánasjóðs sé ætlað að ná geti haft almenna efnahagslega þýðingu sem réttlætt geti ríkisaðstoð. Hins vegar hafi leikið vafi á því hvort að einstakir þættir hins almenna lánakerfis, samrýmdust framkvæmd EES-samningsins.

Bendir dómstóllinn sérstaklega á það að ekkert ákvæði í húsnæðislöggjöfinni hafi takmarkað stærð eða verð íbúðarhúsnæðis sem fjármagnað var með almennum lánum. Þá væru hin almennu lán ekki takmörkuð við það að lántakandi fjármagni eigið íbúðarhúsnæði.