Miðað við núverandi markaðsaðstæður var það rétt ákvörðun hjá Kaupþingi banka að hætta við yfirtökuna á NIBC. Þegar einnig er horft til þess að skuldatryggingaálagið á fimm ára bréfum Kaupþings eru nú hvorki meira né minna en um 550 punktar þá er þetta vart rétti tíminn fyrir Kaupþings til þess að taka á sig frekari fjárhagslegar skuldbindingar.

Þetta kemur fram í áliti  Kim Bergoe, sérfræðings hjá Fox-Pitt Kelton, sem birt var í morgun. Bergoe bendir á að þetta þýði að Kaupþing hafi laust fé til að mæta öllum afborgunum lána á þessu ári þar sem um 1,5 milljarður evra sem bankinn hafi ætlað að nota í kaupin bætist við lausafé bankans og bætist þá við þá 13,3 milljarða evra sem bankinn hafi haft í lok september. Lán sem falli á gjalddaga í ár nemi um 3,2 milljörðum evra  og bankinn hafi laust fé (cash) til þess að mæta þeim og gott betur.“Við efumst um að það sé margir bankar sem séu með betri lausafjárstöðu en Kaupþing er með nú,” segir Kim Bergoe.