Bandaríski fjárfestingabankinn Morgan Stanley segir í nýrri skýrslu að breyting Standard & Poor's á lánshæfishorfum ríkissjóðs í neikvæðar úr stöðugum hafi haft takmörkuð áhrif á íslensku bankana.

Morgan Stanley telur einnig kauptækifæri í annars flokks (e. subordinated) skuldabréfum bankanna með breytilegum vöxtum (e.floating rate notes) og bendir á að álag á skuldatryggingar (e. credit default swaps) bankanna hafi einungis hækkað up fimm punkta í kjölfarið, en þegar Fitch Ratings breytti horfum sínum hafði það mun meiri áhrif á bankanna og fjármálamarkaði.

Í skýrslunni segir að ákvörðun Standard & Poor's og ástandið á Íslandi hafi takmörkuð áhrif á íslensku bankanna og höfundar hennar segjast hafa haft samband við matsfyrirtækið til að fá staðfestingu á skoðun sinni.

Morgan Stanley mælir þó með 20 punkta áhættuálagi á skuldatrygginar bankanna en mælir með kaupum á skuldabréfum bankanna með breytilegum vöxtum. Í skýrslunni segir að álag á skuldatryggingar Kaupþings ætti að vera rúmlega 50 punktar og álagið á skuldatryggingar Glitnis ættu að vera rúmlega 30 punktar. Átt er við tryggingar fyrir vanefndum fyrsta flokks skuldabréfum bankanna.