Ákvörðun matsfyrirtækisins Standard & Poor's um að breyta lánshæfishorfum ríkissjóðs í neikvæðar úr stöðugum hefur orðið til þess að álag á skuldatryggingar (e. credit default swaps) bankanna hefur hækkað og líklegt er hún hafi áhrif á fjármögnunarkostnað bankanna tímabundið, segja sérfræðingar.

Álag á skuldatryggingar, sem eru tryggingar fyrir vanefndum skuldabréfa og annarra fjármálaverkfæra, getur sagt fyrir um þróun fjármögnunarkostnaðar á alþjóðlegum fjármálamörkuðum og ef álagið hækkar eru meiri líkur á því að fjármögnunarkostnaður hækki einnig.

Viðskipti með skuldatryggingar bankanna náðu hámarki um miðjan febrúar og í mars þegar neikvæð umræða um bankana stóð sem hæst og hækkaði álagið verulega í kjölfarið. Álagið hefur hins vegar minnkað síðan þá en hefur hækkað á ný í kjölfar ákvörðunar Standard & Poor's, segja sérfræðingar.

Álag á skuldatryggingar Kaupþings banka hefur hækkað mest eða í 74 punkta úr 66 punktum fyrir um viku síðan. Álagið á skuldatryggingar Landsbankans hefur hækkað í 66 punkta úr 64 og álag á skuldatryggingar Glitnis hefur hækkað í 54 punkta úr 52 punktum. Samkvæmt þessu kostar það 52 þúsund evrur að tryggja sig fyrir vanefndum skuldabréfa Glitnis að virði 10 milljónir evra. Væntingar um vaxtahækkanir víða um heim hafa einnig orðið til þess að markaður með skuldatryggingar hefur brugðist við með hækkandi álagi.

Sérfræðingar segja erfitt að spá fyrir um hvenær markaðurinn róist en benda á að góð fjórðungsuppgjör muni verða til þess að öldurnar lægi. En þangað til sé líklegt að fjármögnunarkostnaður bankanna verði áfram töluverður. Sérfræðingar benda einnig á að afsögn Halldórs Ásgrímssonar komi á óheppilegum tíma og auki á óvissuna um framvindu efnahagsmála og dragi úr trúverðugleika. Lánshæfismati ríkissjóðs, sem er AA-mínus, hefur ekki verið breytt þó svo að horfunum hafi verið breytt í neikvæðar úr stöðugum.