Ál var flutt út fyrir alls  73,5 milljarða króna frá janúar til júní á þessu ári. Heimsmarkaðsverð á áli hefur hækkað mikið að undanförnu og er því spáð að meðalverð 2008 verði nærri 2.800 bandaríkjadölum á tonn.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í skriflegu svari Össurar Skarphéðinssonar iðnaðarráðherra við fyrirspurn Valgerðar Sverrisdóttur, þingmanns Framsóknarflokks. Svarinu hefur verið dreift á Alþingi.

Þingmaðurinn spyr út í framlag áliðnaðarins til þjóðarbúsins en í svarinu segir að upplýsingar um heildartekjur ríkissjóðs af áliðnaði liggi ekki fyrir. "Ríkissjóður fær skatttekjur af launum hvers starfsmanns í áliðnaði en hluti af þeim fer sem útsvar til viðkomandi sveitarfélaga. Álfyrirtækin eru skattlögð samkvæmt íslenskum lögum og nam álagning tekjuskatts 2007 tæplega 1.500 millj. kr.," segir m.a. í svarinu.

Tæplega fimmtán hundruð manns vinna við álverin

Í svarinu segir að áætlað sé að útflutningur áls aukist um 70% að magni til á þessu ári, frá árinu á undan, og að hlutfall útflutningstekna af álframleiðslu nemi um 30% af heildarútflutningstekjum. "Árið 2009, þegar heilsársframleiðslugeta Fjarðaáls verður fullnýtt, er spáð að hlutfallið verði komið yfir 30%," segir í svarinu.

Þar segir enn fremur að alls 1.467 hafi í sumar verið fastráðnir hjá álfélögunum í straumsvík, á Grundartanga og á Reyðarfirði. Þar við bættust 400 manns sem störfuðu við sumarafleysingar. Afleidd störf eru talin vera um 3.100.

Svarið í heild sinni má finna hér .