Arabíska fjölmiðlafyrirtækið Al Jazeera opnar sjónvarpsstöð í Bandaríkjunum á morgun. Sjónvarpsstöðin sendir út frá New York, en húsnæðið er staðsett nærri Madison Square Garden íþróttahöllinni. Í húsinu var áður sjónvarpsstöð sem Al Gore, fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna og forsetaframbjóðandi átti.

Al Jazeera flytur fréttir af atburðum víða úr heimi og hefur meðal annars sent fréttamenn hingað til Íslands til að flytja fréttir af bæði bankahruninu og eldgosinu í Eyjafjallajökli á nýliðnum árum.

AP fréttastofan segir að margir kunnir amerískir blaðamenn muni starfa hjá Al Jazeera í Bandaríkjunum. Þeirra á meðal eru John Seigenthaler, Joie Chen, Antonio Mora og Sheila MacVicar. Forstjóri Al Jazeera í Bandaríkjunum verður Kate O'Brian sem áður var yfirmaður hjá ABC fréttastofunni.