Fjórir breskir karlmenn af asísku bergi brotnir játuðu fyrir rétti í London í Bretlandi að hafa verið meðlimir í hryðjuverkasamtökunum Al-Kaída og áformað að sprengja upp London Stock Exchange, kauphöllina í London, og fleiri merkisstaði í borginni í desember árið 2010. Tilgangur hryðjuverkanna var að skaða breskt efnahagslíf og valda skelfingu í landinu. Verjandi mannanna sagði tilganginn ekki að myrða neinn.

Mennirnir fjórir unnu með fimm öðrum að hryðjuverkum í borginni í nafni Al-Kaída. Mennirnir eru á aldrinum 21 til 30 ára. Þeir voru handteknir í rassíu bresku lögreglunnar í London, Carditt og Stoke-on-Trent fyrir tveimur árum.

Í fórum mannanna fundust leiðbeiningar um sprengjugerð og skjöl með hugsanlegum skotmörkum. Þar á meðal voru breska þinghúsið, Westminster Abbey, parísarhjólið í London, sendiráð Bandaríkjanna í borginni og heimili Boris Johnson borgarstjóra..

AP-fréttastofan segir mennina eiga yfir höfði sér allt að 18 ára fangelsisdóm.