Óvíst er hvert framhald Al-Thani málsins verður að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag. Rúmlega eitt ár er liðið síðan dómur féll í málinu í Héraðsdómi Reykjavíkur. Þá voru þeir Hreiðar Már Sigurðsson, Sigurður Einarsson, Ólafur Ólafsson og Magnús Guðmundsson dæmdir í þriggja til fimm og hálfs árs fangelsi. Allir áfrýjuðu þeir málinu til Hæstaréttar og samkvæmt dagskrá hans stendur til að málflutningur hefjist í lok janúar.

Morgunblaðið greinir nú frá því að málið sé komið í uppnám. Dómurinn í héraði var fjölskipaður. Í blaðinu kemur fram að sérfróður meðdómandi í málinu, endurskoðandinn Magnús G. Benediktsson, hafi átti í umfangsmiklum lánaviðskiptum, meðal annars við Kaupþing banka.

„Tvö fyrirtæki sem hann tengist náið voru tekin til gjaldþrotaskipta snemma árs 2013 og síðastliðið vor," segir í Morgunblaðinu. „Ekkert fékkst upp í kröfur annars félagsins og er skiptum á hinu ekki lokið. Skuldir þess síðarnefnda námu 1,3 milljörðum króna í árslok 2012 og var eigið fé neikvætt um 650 milljónir króna. Meðal krafna í félögin eru kröfur sem upphaflega voru í eigu Kaupþings banka og Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis. Umrædd fyrirtæki fóru illa út úr efnahagshruninu haustið 2008 og bæði sökum þess og þar sem sakarefni Al-Thani-málsins lýtur að viðskiptum Kaupþings banka hefur spurning verið sett við hæfi Magnúsar til að dæma í málinu."

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins hefur Hæstiréttur til skoðunar hvort rétt sé að boða til málflutnings um formhlið málsins eingöngu vegna þessara nýju upplýsinga. Telji rétturinn aftur á móti að Magnús hafi verið vanhæfur til að taka sæti í dómnum komi vart annað til greina en að ómerkja niðurstöðu héraðsdóms.