Forsvarsmenn sex ríkja sem aðild eiga að Samtökum olíuútflutningsríkja (OPEC) eru fylgjandi því að leitað verði leiða til að nýta í meiri mæli en nú endurnýjanlega orkugjafa.

Olíuráðstefna samtakanna stendur nú yfir í Doha í arabríkinu Katar. Hún er haldin á þriggja ára fresti.

Á opnunardegi ráðstefnunnar í dag var rætt um stöðu olíuframleiðslu í heiminum og þá takmörkuðu auðlind sem hún er. Fram kemur í netútgáfu bandarísku fréttastofunnar CCN að fulltrúar aðildarríkjanna geri sér grein fyrir því að sú tíð muni renna upp að olían muni á endanum klárast.

Haft er eftir sjeik Hamad bin Khalifa Al-Thani, emír af Katar, að samtökin styðji rannsóknir og nýtingu á endurnýjanlegum orkugjöfum. Á meðal slíkra verkefna sem þegar eru í farvatninu er virkjun sólarljóssins í Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Arabaríkin eru komin skammt á veg í virkjuninni, mun skemur en Bandaríkjamenn og Spánverjar, að sögn CNN.