Einn úr konungsfjölskyldunni í Katar, Sheikh Joaan Al Thani, keypti í vikunni veðhlaupahest fyrir það sem samsvarar milljarði króna. Hesturinn var seldur á uppboði í Suffolk í Bretlandi.

Þetta er hæsta verð sem hefur nokkurn tímann verið greitt fyrir veðhlaupahest á uppboði í Evrópu. Það sem gerir þessa sölu hins vegar enn athyglisverðari er að hesturinn hefur aldrei tekið þátt í keppni. Hann er of ungur til þess, einungis veturgamall, og hefur ekki hlotið þjálfun.

Kunnugir segja að þessi metsala sé til marks um það að heimskreppan hafi ekki sett mikið mark á hrossaræktun í heiminum

Sheikh Joaan Al Thani er úr sömu fjölskyldu og Sheikh bin Khalifa al-Thani, sem kemur við sögu í sakamáli sem hefur verið höfðað á hendur fyrrverandi stjórnendum Kaupþings.

Hér er greint nánar frá kaupunum.