Þeir Ólafur Ólafsson, löngum kenndur við Samskip og einn af helstu hluthöfum Kaupþings, og Sheikh Mohammed Bin Khalifa Bin Hamad Al Thani, skoðuðu fjárfestingarverkefni í París og Frakklandi áður en sá síðarnefndi keypti 5% hlut í Kaupþingi. Þetta er á meðal þess sem fram kemur í gögnum sem lögmaðurinn Þórólfur Jónsson, verjandi Ólafs lagði fram í Al Thani-málinu við fyrirtöku þess í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.

Fyrirtakan var sú fyrsta eftir að aðalmeðferð málsins var frestað í apríl en henni var frestað þegar þeir Gestur Jónsson og Ragnar Hall báðust lausnar sem verjendur tveggja sakborninga.

Al Thani-málið snýst um 50 milljóna dala lán, jafnvirði 6,4 milljarða króna, samkvæmt gengi dagsins í dag, sem Kaupþing lánaði í september 2008. Lánið var veitt til félagsins Brooks Trading Ltd. til móts við framtíðarávinning sem gæti skapast vegna kaupa félagsins á lánshæfistengdu skuldabréfi, sem gefið var út af Kaupþingi. Lánið var veitt án persónulegrar ábyrgðar Al-Thani.

Tæplega fimmtíu vitni boðuð í dóminn

Nýr dómari hefur jafnframt tekið við málinu og er sá Símon Sigvaldason. Hinir ákærðu í málinu, Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, bankastjórinn Hreiðar Már Sigurðsson, Magnús Guðmundsson, fyrrverandi bankastjóri Kaupþings í Lúxemborg, og Ólafur mættu ekki við fyrirtökuna.

Við fyrirtökuna í morgun var auk framlagningar nýrra gagna rætt um dagskrá aðalmeðferðar málsins. Hún verður mánudaginn 4. nóvember næstkomandi og mun standa í tvær vikur. Tæplega 50 vitni verða boðuð til að mæta í dóminn. Þar á meðal eru frétta- og blaðamenn sem fjölluðu um kaup Al Thanis á hlutabréfum Kaupþings. Þetta er sami fjöldi vitna og var boðaður við aðalmeðferð málsins í vor.