Þórunn Sveinbjarnardóttir var nýverið ráðin framkvæmdastýra Samfylkingarinnar. Hún er fyrrverandi alþingismaður, þingflokksformaður og ráðherra umhverfismála. Þórunn er stjórnmálafræðingur að mennt og stundar nú nám í hagnýtri siðfræði við Háskóla Íslands og mun hún ljúka því námi í haust. Þórunn vinnur nú að lokaritgerð sinni á sviði umhverfissiðfræði og fjallar hún um loftslagssamning Sameinuðu þjóðanna og siðferðileg álitamál sem honum tengjast. Þórunn á eina dóttur, Hrafnhildi Ming, fædda 2002.

Aðspurð um tómstundir segist Þórunn vita fátt skemmtilegra en að liggja upp í loft og lesa bækur. Þá mætir hún iðulega í sundlaugarnar, gengur og þá stundum með stafi, stundar jóga og íhugun. „Að öðru leyti fer frítími minn í heimilislíf, fjölskyldu og vini. Ég er alæta á tónlist, leiklist og bíómyndir. Við mæðgurnar förum reglulega á Sinfóníuna og góðar vinkonur sjá til þess að ég mæti reglulega á leiksýningar. Sú tíð er þó löngu liðin að ég fari í bíó einu sinni í viku, því miður,“ segir Þórunn.

Ítarlega er fjallað um náms- og starfsferil Þórunnar Sveinbjarnardóttur í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð.