Ekki liggur fyrir hver fjármagnskostnaður Íslands vegna láns frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum verður, en ljóst er að hann mun nema tugum milljóna dollara. Grunnvextir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins – síðast uppfærðir 20. október 2008 – eru 3,11% en við þá bætist álag. Vextir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins taka mið af vöxtum helstu seðlabanka heimsins, þar á meðal þeim bandaríska og evrópska, og þróast í takt við breytingar á skammtímavöxtum á alþjóðlegum peningamörkuðum.

Eins og fram hefur komið hefur ríkisstjórn Íslands leitað á náðir sjóðsins og hefur samkomulag náðst um 2 milljarða dollara lán, með fyrirvara um endanlegt samþykki sjóðsins, en búist er við niðurstöðu þess efnis snemma í næstu viku. Ef lánafyrirgreiðslan verður samþykkt opnast samstundis á 830 milljóna dollara lánalínu, sem er fyrsti hluti lánsins. Afgangurinn – 1.170 milljónir dollara – kemur í þrepum, ársfjórðungslega á tveggja ára tímabili. Veruleg óvissa ríkir um fjárþörf íslensks efnahagslífs, en gert er ráð fyrir að það þurfi um 4 milljarða dollara til viðbótar til þess að koma gjaldeyrismarkaðnum og hjólum efnahagslífsins í gang á ný. Seðlabanki Íslands, ásamt forsætis-, viðskipta- og utanríkisráðuneytum vinna nú af krafti að frekari lántökum.

Endurgreiðsla hefst 2012

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn býður upp á ýmsar tegundir af aðstoð eftir því hvers eðlis vandamál landsins sem leitar til sjóðsins er. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins flokkast lán Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til Íslands undir svokallað „Stand-By“ fyrirkomulag.

_______________________________________

Nánar er fjallað um  málið í Viðskiptablaðinu í dag.

Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .