Stjórn Íbúðalánasjóðs hefur lagt það til við félags- og tryggingamálaráðherra að hækka vaxtaálag sjóðsins um 0,15 prósentur og hefur ráðherra fallist á þá tillögu. Álagið leggst á útlánavexti nýrra lána. Við breytingarnar verður vaxtaálag vegna rekstrar 0,40%, vegna útlánaáhættu 0,40% og vegna uppgreiðsluáhættu 0,50%.

Vaxtaálag vegna rekstrar var 0,30% og vegna útlánaáhættu 0,35%. Álag vegna uppgreiðsluáhættu er óbreytt. Samtals er álag, sem Íbúðalánasjóður leggur á lántakendur, 1,30% en var áður 1,15%. Í febrúar síðastliðnum var vaxtaálagið 0,95% og hefur því hækkað um 0,35 prósentur frá þeim tíma.

Stjórnin tók þessa ákvörðun í kjölfar útboðs á íbúðabréfum í gær. Vegnir vextir í útboðinu voru 3,68% og gaf Íbúðalánasjóði tækifæri til að lækka útlánavexti til íbúðarkaupenda. Í stað þess var ákveðið að hækka álagið til að bæta fjárhagsstöðu sjóðsins, sem uppfyllir ekki lengur strangar kröfur um eiginfjárhlutfall. Sama háttinn hafði stjórn sjóðsins á í lok febrúar síðastliðinn þegar vaxtaálag var hækkað um 0,20% þegar tækifæri var til að lækka útlánavexti í kjölfar útboðs.

Útlánavextir íbúðalána með uppgreiðsluákvæði verða 4,50% og 5,00% á íbúðalánum án uppgreiðsluákvæðis. Þessi ákvörðun tekur gildi í dag, 8. júní 2010.