Álag á skuldatryggingar bankanna á eftirmarkaði hefur hækkað um nokkra punkta undanfarna daga. Verðið á skuldatryggingum er að öllu jöfnu notað sem mælikvarði á það traust sem bankarnir njóta á alþjóðlegum fjármagnsmarkaði. Því lægra sem álagið er því betra, en eins og kunnugt er hefur álagið verið að lækka hratt í allt haust í kjölfar viðsnúnings í viðhorfi erlendra greiningar- og markaðsaðila til bankanna. Álag á skuldatryggingum Kaupþings banka er nú 53 punktar en var í október og nóvember stöðugt í kringum 48 punkta. Landsbankinn er nú kominn upp í 42 punkta eftir að hafa lengi verið í kringum 38. Álagið á skuldatryggingar Glitnis er eftir sem áður lægra enn hinna bankanna og stendur nú í 34 punktum sem er svipað og fyrir mánuði.