Álag á skuldatryggingar bankanna á eftirmarkaði hefur hækkað um nokkra punkta í dag eftir að hafa haldist stöðugt í kjölfar þeirra tíðinda að matsfyrirtækið S&P lækkaði lánshæfismat ríkissjóðs rétt fyrir jól eða 22. desember.

Sérfræðingar segja að markaðsaðilar séu nú loks að taka við sér og byrjaðir að bregðast við ákvörðun S&P. Álag á skuldatryggingum Kaupþings er nú 49 punktar og hefur þá hækkað um tvo punkta frá því að S&P breytti lánshæfiseinkunn ríkissjóðs. Álag á skuldatryggingum Glitnis hefur einnig hækkað um tvo punkta og stendur nú í 34 punktum og Landsbankinn hefur hækkað um einn punkt og er álagið nú 37 punktar.