Væntingar um vaxtahækkanir í Evrópu, Japan og Bandaríkjunum og lækkanir á hlutabréfamörkuðum víða um heim hafa orðið til þess að markaður með skuldatryggingar (e. credit default swaps) hefur brugðist við með hækkandi álagi, segja sérfræðingar.

Á evrusvæðinu er þess vænst að evrópski seðlabankinn muni hækka vexti að minnsta kosti tvisvar í viðbót á árinu, úr 2,5% í 3%, og í Bandaríkjunum er þess vænst að bandaríski seðlabankinn muni hækka vexti einu sinni í viðbót í 5,25%, segir greiningardeild Glitnis, en stýrivextir í Bandaríkjunum eru nú 5%.

Álag á skuldatryggingar íslensku bankanna, sem hækkaði verulega í kjölfar umróts á íslenskum fjármálamarkaði sem hófst í febrúar með breytingum Fitch Ratings á lánshæfishorfum íslenska ríkisins úr stöðugum í neikvæðar, hefur hækkað nokkuð eftir töluverðar lækkanir vegna væntinganna, segja sérfræðingar.

Innlendir fjármálasérfræðingar benda þó að að álag á skuldatryggingar íslensku bankanna hafa hækkað minna í samanburði við aðra norræna banka, en hlutabréfaverð á Norðulöndum tók dýfu nýlega, og hefur álagið lækkað verulega síðan það skaust upp um miðjan mars þegar neikvæð umfjöllun um íslenska bankakerfið stóð sem hæst.

Álagið á skuldatryggingum Glitnis, sem tryggja kaupendur skuldabréfa bankans fyrir vanefndum, hefur verið í kringum 44-50 punktar, álagið á skuldatryggingar Landsbanka Íslands hefur verið í kringum 55-59 punktar en mest er álagið á skuldatryggingar Kaupþings banka, eða um 60-65 punktar. Samkvæmt þessu kostar það 60-65 þúsund evrur að tryggja sig fyrir vanefndum skuldabréfa Kaupþings banka að virði 10 milljónir evra.

William Symington, sem stýrir fjármögnunarborði Glitnis í London, sagði nýlega við Viðskiptablaðið að bankinn myndi treysta sér aftur á alþjóðlega skuldabréfamarkaði þegar álagið hefði náð jafnvægi í kringum 30-35 punkta.

Sérfræðingar búast við að álagið á íslensku bankanna eigi eftir að lækka aftur á næstunni, sérstaklega eftir að umræðan um bankana hefur verið jákvæðari en áður, sem meðal annars má rekja til skýrslu hagfræðinganna Frederic Mishkin og Tryggva Þórs Herbertssonar fyrir Viðskiptaráð Íslands.