Álag á skuldatryggingar (e. credit default swaps) bankanna hefur farið lækkandi í kjölfar sex mánaða uppgjöra þeirra og frétta af endurfjármögnun.

Samkvæmt upplýsingum frá markaðsaðilum lækkaði álagið á Kaupþing banka um einn punkt í 71 punkt í dag. Álagið á skuldatryggingar Landsbankans lækkaði einnig um einn punkt í 61 punkt og álagið lækkaði um tvo punkta á Glitni í 50 punkta.

Hins vegar hækkaði álagið á skuldtryggingar ríkissjóðs um tvo punkta í 10 punkta, samkvæmt upplýsingum markaðsaðila.

Skuldatryggingar eru tryggingar fyrir vanefndum á útgefnum skuldabréfum og geta gefið til kynna hve hagstætt eða óhagstætt er að sækja fjármagn á aðlþjóðlega skuldabréfamarkaði.

Álagið á skuldtryggingar bankanna og ríkisjóðs hefur hækkað á síðustu mánuðum og má rekja hækkunina til umróts á íslenskum fjármálamarkaði í kjölfar neikvæðrar umfjöllunar erlendra greiningaraðila og fjölmiðla.