Álag á skuldatryggingar (e. credit default swaps) Glitnis hefur hjaðnað á fjármálmörkuðum eftir að bankinn fékk langtímalánshæfismatið A-mínus hjá lánshæfismatsfyrirtækinu Standard & Poor's, sagði Ingvar Ragnarsson, forstöðumaður alþjóðlegrar fjármögnunar Glitnis, í samtali við Viðskiptablaðið í gær. S&P segir horfur bankans stöðugar.

Ingvar segir einkunnargjöfina senda jákvæð skilaboð til fjárfesta og bendir á að álagið á skuldatrygginar Kaupþings banka og Landsbanka Íslands hafi einnig lækkað í kjölfarið. Hann segir álagið hafa lækkað um allt að 20 punkta yfir EURIBOR, sem eru millibankavextir í Evrópu, frá opnun markaða á mánudaginn. Álagið hefur dregist saman í um 50 punkta úr 70 punktum og segir Ingvar að álagið hafi strax lækkað um 9-10 punkta eftir að S&P sendi frá sér tilkynningu um lánshæfismatið. Sérfræðingar eru sammála um að einkunnargjöfin ætti að hafa jákvæð áhrif á álit markaðsaðila á íslensku bönkunum.

Greiningaraðilar benda einnig á að lánshæfismat S&P hafi ýtt undir hækkanir á hlutabréfamarkaði í gær. Úrvalsvísitalan hækkaði um 0,85% eftir snarpar lækkanir, sem greiningaraðilar segja að rekja megi til neikvæðra greininga erlendra banka og misvísandi fjölmiðlaumfjöllunar. Gengi bréfa Glitnis hækkaði um 2,8% í gær og segja sérfræðingar að lánshæfismat S&P hafi stuðlað að hækkuninni. Gengi bréfa Landsbanka Íslands hækkaði um 1,2% en gengi bréfa Kaupþings banka lækkaði um 0,1%.

Glitnir er fyrstur íslenskra banka til að fá lánshæfismat hjá S&P. Samkvæmt S&P endurspeglar matið sterka stöðu Glitnis á innanlandsmarkaði og bætta dreifingu í eignasafni bankans með vaxandi starfsemi bankans í Noregi, segir í tilkynningu. Moody's Investors Service gefur Glitni einkunina A1, sem samsvarar A+ hjá S&P og er tveimur þrepum hærra. Hins vegar benda sérfræðingar á S&P sé mun íhaldsamara í einkunnagjöf sinni.