Álag á skuldatryggingar (e. credit default swaps) bankanna hefur verið að minnka jafnt og þétt síðustu daga og er álagið á skuldtryggingar Glitnis nú undir 50 punktum í fyrsta sinn um nokkurt skeið.

Samkvæmt upplýsingum frá markaðsaðilum hefur álagið á tryggingar Kaupþings banka dregist saman um einn punkt frá því í gær, en hefur það þó hækkað um einn til tvo punkta í viðskiptum í dag.

Í gær var álagið 70 punktar í skuldatryggingar Kaupþings og lækkaði álagið um einn punkt frá því á mánudaginn. Álagið á Landsbanka Íslands var einnig einum punkti lægra en í gær við opnun markaðar í morgun og var 60 punktar. Álagið á Glitni var 49 punktar við lok markaðar í gær og lækkaði um einn punkt í viðskiptum dagsins.

Álagið á íslenska ríkið lækkaði um þrjá punkta í gær og var sjö punkta, eftir að hafa hækkað í tíu punkta fyrr í vikunni. Álagið hefur hækkað um 0,75 punkta í dag.

Skuldatryggingar eru tryggingar fyrir vanefndum á útgefnum skuldabréfum og geta gefið til kynna hve hagstætt eða óhagstætt er að sækja fjármagn á aðlþjóðlega skuldabréfamarkaði.