Álag á skuldatryggingar (e.credit default swaps) fimm ára skuldabréfa Kaupþings banka lækkaði um sjö punkta í viðskiptum á CDS-markaði í gær og endaði í 60 punktum, samkvæmt upplýsingum frá markaðsaðilum.

Sérfræðingar benda á að álagið, sem gefur til kynna hve hagstætt það er fyrir bankana að sækja fjámagn á erlenda skuldabréfamarkaði, hafi hrífallið á síðustu vikum og mánuðum eftir mikið yfirskot í kjölfar neikvæðrar umræðu um íslensku bankana fyrr á þessu ári.

Álag á skuldatryggingar Landsbanka Íslands lækkaði um fjóra punkta í gær og fór undir 50 punkta í fyrsta skipti um nokkuð langt skeið.

Álagið á skuldatryggingar Glitnis lækkaði um þrjá punkta í gær og lokaði í 38 punktum, en bankinn hefur gefið til kynna að hann muni treysta sér að gefa út fyrsta flokks skuldabréf á almennun skuldabréfamarkaði þegar álagið nálgast 35 punkta.

Íslensku bankarnir hafa lokið endurfjármögnun fyrir næsta ár, en sérfræðingar benda á að fjármögnunarkostnaðurinn hafi verið hár og ekki endurspegla styrk þeirra né lánshæfismat. Kaupþing og Glitnir eru með lánshæfismatið A1 hjá Moody's Investors Service og Landsbankinn er með lánshæfiseinkunina A2 hjá sama matsfyrirtæki.

Sérfræðingar á fjármálamarkaði segja lækkun álags á skuldatryggingar bankanna gefa til kynna að þeim hafi tekist að endurvekja traust fjárfesta á starfsemi þeirra og að hagstæðari kjör fáist að öllum líkindum á næsta ári að öllu óbreyttu.